ÁBENDINGAR
ÁBYRGÐARAÐILAR (s.s. sjónvarpsstöðvar, kvikmyndahús, sölustaðir) bera sjálfir ábyrgð á því að útgefið efni sé aldursmerkt. Almenningur getur komið athugasemdum/ábendingum á framfæri ef talið er að niðurstaða mats á sýningarhæfi kvikmyndar eða tölvuleiks sé í andstöðu við lög um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum. Ábending þess efnis þarf að berast innan tveggja vikna frá því meint brot uppgötvaðist. Notast má við staðlað ábendingaform sem finna má hér að neðan. Einnig má senda tölvupóst á kvikmyndaskodun (hjá) fsk.is.
Dæmi um ábendingar:
• Kvikmynd hefur ekki verið aldursmerkt.
• Kvikmynd eða sjónvarpsefni er merkt aldursmerkingu og efnisvísum sem eru ekki í samræmi við innihald.
• Sjónvarpsrás sendir út dagskrárþætti sem flokkaðir eru fyrir 12 ára eða eldri fyrir kl. 21.00 á virkum dögum eða fyrir kl. 22.00 um helgar.
• Kápa á DVD-mynddisk er merkt rangri aldursmerkingu eða efnisvísum.
Ábending sem send er í gegnum vef Kvikmyndaskoðunar berst fyrst til FRÍSK sem metur hvort um lögmæta ábendingu sé að ræða. Sé svo, er ábendingunni komið áfram til viðkomandi ábyrgðaraðila sem hefur tvær vikur til að bregðast við.
Sé ábendingin/brotið þess eðlis að hægt er að laga það á staðnum, og það er gert, þá skal málið falla niður og þeirri niðurstöðu komið á framfæri við þann sem sendi ábendinguna inn.
Hafi ábyrgðaraðilar hins vegar ekki svarað innan tveggja vikna eða að ábyrgðaraðili telur ábendinguna/kvörtunina ekki standast, er málinu vísað til Fjölmiðlanefndar sem lögum samkvæmt hefur eftirlit með því að lögum um fjölmiðla sé fylgt. Ábendingaraðila er tilkynnt sérstaklega sé ábendingin áframsend til Fjölmiðlanefndar. Fjölmiðlanefnd getur í framhaldi gefið út álit um ágreiningsefnið og hefur skv. lögum heimild til þess að beita ábyrgðaraðila viðurlögum, s.s. stjórnvaldssektum eða innköllun efnis.
Telji FRÍSK að ábendingin sé ekki lögmæt eða órökstudd er ábendingaraðila gert ljóst í skriflegu svari af hverju slíkt sé.
Ábendingaraðili hefur ávallt tök á að senda inn frekari gögn til stuðnings máli sínu. Einnig er ábendingaraðila ávallt heimilt að senda málið beint til Fjölmiðlanefndar kjósi hann svo.
Gerist það að lögð sé fram ábending gegn ábyrgðaraðila sem ekki er í samtökunum, tekur FRÍSK ekki ábendinguna til meðferðar.
Ábendingaraðila verður tilkynnt það skriflega og viðkomandi vísað til Fjölmiðlanefndar.
Eyðublað vegna ábendinga um aldursmerkingu og/eða sýningartíma myndefnis